vinnvinn

finna starf

Við höfum tengt besta fólkið við bestu fyrirtækin í yfir 20 ár, sem þýðir að við þekkjum hvað einkennir farsælt ráðningar­samband. Árangur samstarfs­aðila er okkar velgengni, svo við leggjum ávallt gríðarlega hart að okkur.

Hér eru störf sem við getum sagt þér frá, en svo erum við oft að leita eftir fólki í störf sem eru ekki auglýst. Ef þú ert að leita að starfi eða hugsa þér til hreyfings, láttu okkur vita af þér og skráðu þig hérna.

ný­­skráning

Þegar þú skráir þig og sendir okkur ferilskrána þína þá metum við þinn bakgrunn, bæði menntun og starfsferil, útfrá þeim störfum sem við erum að ráða í og eru ekki auglýst.

Takk fyrir að treysta okkur fyrir framhaldinu, mundu bara að þetta getur tekið tíma.

Skráðu þig hérna

gott að vita

Stór þáttur í að kynna sig og koma sér á framfæri er að setja upp greinargóða og vandaða ferilskrá ásamt kynningarbréfi sem svarar þeim hæfniskröfum sem settar eru fram í auglýsingu, ef svo ber undir.

Að gera góða ferilskrá tekur tíma, þetta er ekki skjal sem þú hendir saman á nokkrum klukkutímum eða tveimur dögum. Vandaðu þig, það mun skila árangri. Mikilvægt er að ferilskráin sé vel unnin og er hæfileg lengd á ferilskrá 1–2 blaðsíður.

Það sem koma þarf fram í ferilskrá er eftirfarandi:

  • Persónulegar upplýsingar: þarna er átt við fullt nafn, símanúmer og netfang. Gott er að láta mynd umsækjanda fylgja með.
  • Menntun og starfsreynsla, eftir tímabilum: áhrifaríkast að hafa nýjasta starfið efst og gott að skrifa eina til tvær setningar um hlutverk og ábyrgð í starfi. Gott er að sýna fram á árangur í starfi með tölulegum gögnum og mælanlegum árangri.
  • Önnur hæfni: þetta geta verið t.d. tungumála- og tölvukunnátta en mikilvægt er að fram komi sú hæfni sem beðið er um í auglýsingu fyrir það starf sem þú sækir um.
  • Umsagnaraðilar: Gott er að tilgreina 2–3 umsagnaraðila og helst að skrá gsm-númerið þeirra. Vistið ferilskrá á PDF-formi undir nafni og ferilskrá. T.d. „Jón Jónsson – ferilskrá“.

Það sem ber að varast:

  • Of mörg orð og langar setningar, hafa heldur stuttar og hnitmiðaðar setningar.
  • Að gleyma ekki að telja ekki upp þá reynslu sem starfið krefst.
  • Passið stafsetningu, látið einhvern annan lesa yfir áður en ferilskrá er send.

Kynningarbréf er ítarlegra og persónu­legra en ferilskráin. Vel uppbyggt kynningarbréf á að vekja áhuga á að skoða viðkomandi nánar. Hvernig stendur þú út úr hópnum sem er verið að skoða, af hverju ætti ég að ráða þig? Markmið kynningarbréfs er að gefa til kynna hversu vel þú uppfyllir hæfniskröfur.

Það sem þarf að koma fram í kynningarbréfi:

  • Kynning á því af hverju þú sækir um tiltekið starf og hver ástæða umsóknarinnar sé.
  • Það er mikilvægt að þú takir fram í kynningarbréfi hvernig þú mætir þeim hæfniskröfum sem gerðar eru fyrir starfið og hvernig þú sjáir þig passa í starfið með tilliti til fyrri reynslu. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli þegar sótt er um opinber störf.
  • Bréfið endar á persónulegum nótum og hvar hægt sé að ná í þig í síma og netfangi.
  • Gott er að hafa kynningarbréf ekki lengra en hálfa til eina blaðsíðu. Mundu í upphafi bréfs að ávarpa þann sem er titlaður fyrir ábyrgð á ráðningu í starfið og hafa nafn þitt og tengslaupplýsingar til staðar.
  • Tilgreinið hverja hæfnikröfu og skrifið undir hverja þeirra hver reynsla þín er. Æskilegt er að hvert svar sé ekki lengra en 200 orð.

Það sem ber að varast:

  • Of löng bréf.
  • Ítarlegar lýsingar á mannkostum ykkar, þá er aldrei hægt að meta á pappír, því miður.
  • Útlistun á ættartali. Það er í lagi að tiltaka fjölskylduaðstæður, en upptalningar á föður, móður, systkinum o.s.frv. er ofaukið.
  • Að endurskrifa ferilskrána í samfelldum texta.

Áður en farið er í atvinnuviðtal er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Hvað veit ég um fyrirtækið? Skoðaðu vefsíðu fyrirtækisins og nýjustu fréttir.
  • Hvert á ég að mæta og klukkan hvað?
  • Er klæðnaður minn viðeigandi og líður mér vel í honum?
  • Jákvætt hugarfar og bros ættu ávallt að vera með í för.

Spurningar til þín

Skoðaðu vel þær hæfnikröfur sem gerðar eru til starfsins. Vertu tilbúin/nn að svara með dæmum þegar þú ert spurð/ur um reynslu, hvort sem er af hlutlægum eða huglægum þáttum.

Dæmi um uppbyggingu spurninga:

  • Getur þú nefnt dæmi þar sem þú sýndir sveigjanleika í þínum vinnubrögðum, hverjar voru aðstæðurnar?
  • Hver er reynsla þín af sölu- og markaðsmálum, hvert var umfangið, tíminn, hlutverk og ábyrgð því tengt?

Hvernig á að svara?

Í viðtölum er leitast eftir svörum með dæmum af reynslu, hvort sem er úr vinnuumhverfi, skóla eða sjálfboðastarfi.

Þegar þú svarar spurningum, hafðu það í huga að svar þitt sé vel upp byggt, þ.e. að lýsing þín hafi upphaf, miðju og endi. Leggðu áherslu á að lýsa aðstæðum sem þú varst í, hvert þitt hlutverk var, hver var aðgerðin eða ákvarðanir sem þú tókst og að lokum hver niðurstaðan eða útkoman var. Mikilvægt er að þarna komi skýrt fram hvert þitt framlag var, notaðu orðið „ég“ en ekki „við“ þegar þú lýsir aðgerðum.

Það er mikilvægt að gefa nákvæm, skýr og heiðarleg svör.

Spurningar sem þú getur spurt um í viðtali:

  • Hversu margir starfa hjá fyrirtækinu og hvernig er starfsandinn?
  • Hver yrði næsti stjórnandi?
  • Hvers vegna er þessi staða laus?
  • Hvernig er fræðsla og þjálfun innan fyrirtækisins?
  • Hvernig lýsir þú menningu fyrirtækisins?
  • Hver er meðalaldurinn innan fyrirtækisins?
  • Hvert er kynjahlutfallið innan fyrirtækisins?

Atvinnuleitin – sjálfsskoðun

  • Viðhorf, rútína og sjálfsskoðun.
  • Fæstum er það í blóð borið að leita sér að vinnu og segja má að atvinnuleit sé eitthvað sem þú sem einstaklingur mögulega forðast að hugsa um og margir undirbúa atvinnuleitina ekki nægilega vel.
  • Viðhorf er eitt af því sem skiptir miklu máli í atvinnuleitinni, það að temja sér jákvætt viðhorf, vera með opin augu og opinn huga fyrir mögulegum tækifærum skilar yfirleitt árangri. Forðastu að slá hugmyndir strax út af borðinu, veltu þeim fyrir þér og taktu síðan ákvörðun um hvort þetta sé eitthvað fyrir þig.
  • Þá skiptir rútína ekki síður máli, það að skipuleggja sig og beita stefnumiðaðri hugsun er líka vænlegt til árangurs. Það er nefnilega vinna að leita sér að vinnu. Og gott að átta sig á því að atvinnuleitin getur tekið tíma, allt frá nokkrum dögum, vikum og upp í mánuði. Þetta fer að sjálfsögðu eftir því, hvað er í boði á hverjum tíma og hvernig bakgrunni, menntun og reynslu er verið að leita eftir.
  • Komdu þér upp rútínu að minnsta kosti hálfan daginn, búðu þér til verkefni og taktu frá tíma í atvinnuleitina á hverjum degi.
  • Hreyfing, hollt mataræði og góður svefn skiptir líka máli. Þeim mun betur sem þér líður, þeim mun meiri líkur eru á að þú náir árangri í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur.
  • Nýttu tímann og hugsaðu hvað vil ég gera, hvað langar mig að gera, á hverju hef ég áhuga, hvaða eiginleika eða hæfni bý ég yfir og ekki síst í hvers konar umhverfi eða kringumstæðum blómstra ég.
  • Þeir sem eru í atvinnuleit missa oft móðinn og fyllast vonleysi þegar hægt gengur. Það getur verið erfitt að fá neikvæð svör eða jafnvel engin svör. Það gildir um þetta eins og svo margt annað að hafa úthaldið og þrautseigjuna.

Ferilskrá

  • Útlit og uppsetning á ferilskrá skiptir máli. Skýrt letur sem auðvelt er að lesa og látlaust sniðmát þar sem yfirheiti og titlar eru greinileg í gegnum alla ferilskrána. Augu lesandans beinast að þessum línum.
  • Yfirlit eða stutt umfjöllun um þig og þína hæfni efst á fyrstu síðu getur verið „sölupunktur“.
  • Við mælum með að telja upp helstu verkefni í punktaformi, hver punktur má vel innihalda eina til tvær setningar.
  • Hafðu í huga að lesandinn er með bunka af ferliskrám til að skima og því skiptir máli að ferilskráin sé lýsandi fyrir þinn starfsferil. Vandaðu vinnuna og passaðu að ritmál sé gott og forðastu óþarfa villur s.s. stafsetningarvillur eða innsláttarvillur. Betur sjá augu en auga. Þess vegna er nauðsynlegt að láta lesa yfir ferilskrána.
  • Gefðu þér tíma til að leita og skoða sniðmát af ferilskrám á netinu, þú sérð líklega fljótt hvað hentar þér og hvað ekki. Á síðunni canva.com er t.d. að finna mikið magn af sniðmátum, sum þeirra eru frí, önnur þarf að greiða fyrir. Þá býður Microsoft Word forritið upp á sniðmát fyrir ferilskrá.
  • Ferilskráin er yfirlit yfir náms- og starfsferil þinn og þekkingu á ýmsum sviðum. Hugsaðu c.a. 10 ár aftur í tímann þegar þú útbýrð ferilskrána.
  • Lykilatriði eru að helstu persónuupplýsingar séu sýnilegar, efst í ferilskránni, eins og nafn, sími og netfang, þú vilt jú fá símtalið eða póstinn.
  • Mikilvægt er að þau atriði sem þurfa að koma fram séu í réttri tímaröð og yfirflokkar og titlar feitletraðir, lesandinn skannar fljótt helstu atriði vinstra megin á síðunni og les viðbótarupplýsingar eftir því sem þörf er á.  
  • Meginflokkarnir í ferilskránni eru menntun og starfsreynsla. Nýjasta menntunin þín efst og svo koll af kolli. Dæmi: Menntun, skóli og ártal. Í starfsreynslu skrifarðu starfsheiti, vinnuveitanda og tímabil, og það sama á við hér, nýjasta starfsreynslan efst. Gott er að miða við að starfsreynslan miðist við próflok/ útskrift en þetta fer þó eftir því hve lengi þú hefur verð á vinnumarkaði.
  • Upplýsingar um tungumálakunnáttu, tölvukunnáttu og umsagnaraðila þurfa að koma fram. Nokkur orð um hæfni í ræðu og riti undir kaflanum um tungumál og upptalning á helstu forritum sem þú hefur þekkingu og reynslu af því að vinna með. Best er að benda á umsagnaraðila sem eru nýjastir í tíma, t.d. síðustu tvo vinnuveitendur og þá yfirmenn sem þekkja best til þinna starfa.
  • Eins eru upplýsingar um námskeið og áhugamál gagnlegar, þær gefa innsýn í hver þú ert og hvað þér finnst skemmtilegt.
  • Mynd eða ekki mynd er algeng spurning við gerð ferilskrár. Mynd er ekki úrslitaatriði en ef þú átt góða mynd af þér, „professional mynd“, þá er ekkert því til fyrirstöðu að hafa hana með.
  • Hæfileg lengd á ferilskrá er tvær blaðsíður.
  • Mundu að vista ferilskrána sem pdf áður en þú sendir hana frá þér.

Kynningarbréf

  • Kynningarbréf er við hæfi að senda með og tiltölulega auðvelt að skrifa í þeim tilfellum þegar þú ert með ákveðið starf í huga.
  • Góð aðferð er að byrja kynningarbréf á að ávarpa þau sem standa að því að ráða í starfið.
  • Gott er að byrja kynningarbréf t.d. á setningu eins og „Ég undirrituð, sæki hér með um starf...., starfslýsing og hæfni vekur áhuga hjá mér og tel ég mig hafa margt fram að færa til að sinna starfinu.“
  • Í framhaldi af stuttum inngangi byrjar þú að rökstyðja hæfni þína til starfsins.
  • Kynningarbréf á ekki að vera almenns eðlis, bréfið þarf að vera sértækt og best er ef þú getur í örstuttu máli tilgreint hvar þú hefur aflað þér þekkingar og reynslu sem passar starfinu.
  • Lykilatriði við gerð kynningarbréfs er að hafa í huga að vekja það mikinn áhuga hjá lesandanum að hann hafi áhuga á að hitta þig í viðtali og tilgangur með kynningarbréfi er að lýsa yfir ástæðu umsóknar þinnar og rökstyðja hæfni þína til að sinna starfinu.
  • Í kynningarbréfi gefst þér tækifæri til að sýna hvað þú hefur fram að færa til að sinna starfinu bæði út frá þekkingu þinni og reynslu og ekki síst að lýsa þínum persónulegu styrkleikum sem þú býrð yfir og nýtast í starfinu.
  • Í því samhengi er nauðsynlegt fyrir þig að svara hverri og einni hæfniskröfu sem tilgreind er í auglýsingunni og óskað er eftir að viðkomandi starfsmaður búi yfir. Það gerir þú með því að taka hverja hæfniskröfu fyrir, máta þig við hana og skrifa út frá henni.
  • Örstutt niðurlag í lokin á bréfinu þar sem þú vonast eftir jákvæðum viðbrögðum og þú fáir tækifæri til að kynna þig enn betur.
  • Hæfileg lengd á kynningarbréfi er ein blaðsíða en það má líka vera styttra.
  • Það er við hæfi að fylgja umsókn sinni eftir við þann sem hefur umsjón með að ráða í starfið. Þú gerir það annað hvort með símtali eða stuttum tölvupósti til viðkomandi.

Viðtal – vídeóviðtal

  • Mættu vel undirbúin/n í viðtal og viðtöl.
  • Kynntu þér fyrirtækið og starfsemina eins og kostur er.
  • Undirbúðu spurningar til að varpa fram þegar tækifæri gefst.
  • Vertu tímanlega, hæfilega þó, veltu fyrir þér klæðnaði og mættu í viðeigandi fötum, sem passa starfinu og umhverfinu. Veltu fyrir þér hvort þú eigir að nota ilmvatn við þetta tækifæri, of sterkt ilmvatn getur verið truflandi.
  • Geymdu tyggjó þangað til eftir viðtalið og vertu ekki nýbúinn að maula á einhverju sem gæti fest í tönnunum á þér.
  • Lykilatriði, sama í hvaða formi viðtalið er, er að undirbúa sig vel, svara hæfniskröfum og máta sig í starfið út frá þeim og starfssviðinu, haltu þig við efni spurninganna og farðu ekki út um víðan völl en komdu þó öllu að sem skiptir máli.
  • Sá sem er að ráða í starf er að leita að þeim einstaklingi sem kemur til með að standa sig best og uppfyllir kröfurnar sem gerðar eru til starfsins.
  • Prufaðu að æfa þig fyrir viðtalið og hugsaðu svör við mögulegum spurningum út frá AHHA; Aðstæður, Hlutverk, Hegðun og Afleiðingar. Sá sem tekur viðtalið leitast við að fá skýrar og nákvæmar upplýsingar um reynslu þína, hverjar voru aðstæðurnar, hvert var þitt hlutverk, hvað gerðir þú í aðstæðunum og hverjar voru afleiðingarnar. „Fyrri hegðun spáir fyrir um hegðun í framtíðinni.“
  • Rökstyddu svar þitt með sértækum dæmum máli þínu til stuðnings frekar en almennum dæmum og hafðu þau helst nýleg í tíma.
  • Þú getur líka alltaf vafrað á netinu og leitað að algengum spurningum og hvað þú átt að segja og hvað þú átt ekki að segja. Prófaðu „Google Recruitment Process“. Þú verður örugglega einhvers vísari.
  • Passaðu upp á líkamstjáningu.
  • Talaðu vel um fyrri vinnuveitendur og skildu vandmálin eftir heima.
  • Vídeóviðtal – í sjálfu sér er undirbúningur sá sami fyrir vídeóviðtal.
  • Finndu þér bjartan og rólegan stað þar sem ólíklegt er að þú verðir fyrir truflun.
  • Athugaðu gæði nettengingar og vertu viss um að hafa nóga hleðslu á tölvunni/tækinu.
  • Prufaðu áður en sjálft viðtalið á sér stað.
  • Vertu þú sjálf/ur. Reyndu eftir fremsta megni að vera afslöppuð/afslappaður, viðmælandi þinni vill að þér líði vel í viðtalinu og að þið eigið góðan fund saman.
  • Viðtali eða viðtölum er eðlilegt að fylgja eftir, á sama máta og fyrr og láta í ljósi áhuga. Reyndu að finna hinn gullna meðalveg.

Hvar á ég að leita að vinnu? Hvernig leita ég að vinnu?

  • Á www.alfred.is
  • Á www.storf.is
  • Á vefsíðum ráðningarstofa.
  • Á vefsíðum fyrirtækja sem þér þykja áhugaverð og sérð að þinn bakgrunnur gæti nýst.
  • Á LinkedIn.
  • Nýttu tengslanetið.

Atvinnuleitendur og samfélagsmiðlar

  • Skiptar skoðanir eru um notkun samfélagsmiðla í ráðningarferli en þú mátt alveg eiga von á því að sá sem er að ráða í starfið slái nafn þitt inn í leitarvél Google eða leiti að þér á Facebook.
  • Vandaðu því  hvað þú segir á samfélagsmiðlum, framsetningu, stafsetningu og málfar.
  • LinkedIn er ferilskráin þín á netinu.

Í hnotskurn

  • Við mælum með jákvæðu viðhorfi og heilbrigðu líferni til að hafa úthald í atvinnuleitinni, þú vilt ekki stökkva á fyrsta starfið ef þér líkar það ekki.
  • Ferilskráin þarf að vera skýr, látlaus og hnitmiðuð, efnisflokkar og titlar vel aðgreindir þannig að augað nemi aðalatriðin fljótt.
  • Kynningarbréfið þarf að vekja það mikinn áhuga hjá lesandanum að þú komist áfram í ráðningarferlinu, þ.e. í viðtal.
  • Viðtalið er þitt tækifæri til að koma þér á framfæri, vertu vel undirbúin/n.
  • Framkoma þín í gegnum ráðningarferlið skiptir máli. Kurteisi kostar ekki neitt. Fylgdu málum eftir á hæfilegan máta, hafðu í huga að feta hinn gullna meðalveg.
  • Nýttu netið og leitaðu tækifæra. Nýttu tengslanetið þitt og láttu vita af þér.
  • Vandaðu fótspor þitt á samfélagsmiðlum.

Gangi þér vel!